Að skilja ársreikninga – Partur 2

Í síðasta pistli fór ég lauslega yfir rekstrarreikning fyrirtækja og samspil hans við efnahagsreikning. Efnahagsreikningur er eitthvað sem vitgrannir netbankakúrekar virðast eiga erfitt með að skilja enda eftirlæti hans að glugga í rekstrarreikning fyrirtækis og draga þannig ályktun á gengi þess.

Hvað er efnahagsreikningur?

Efnahagsreikningur er einn af þrem meginhlutum sem saman mynda ársreikning fyrirtækja auk Rekstrareiknings og Sjóðstreymisyfirlits. Hann kann að líta ógnvænlega út fyrir ótamdan aðila í fyrstu, en fyrst Addi og Iddi gátu komist upp á lagið í fræðunum, þá getur þú það.

Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í lestri ársreikninga, þá fannst mér best að hugsa Efnahagsreikninginn á þann veg að hann segði mér til um stöðu eigna fyrirtækis og hvernig þær eru fjármagnaðar. Það á jafn vel við í mínum huga nú og það gerði þá, þó hægt sé að flækja efnistök hans talsvert. Í grunninn eru þó einungis til tvær leiðir til að fjármagna eignir. Og aðeins tvær. Með skuldum og með eigin fé. Það er enginn meðalvegur þarna á milli. A.m.k. enginn heilbrigður.

Fæði, klæði, húsnæði.

Gangverk Efnahagsreiknings má hugsa eins og kaup á húsnæði. Algjör grundvallarjafna sem þarf að hafa í huga er Eignir = Skuldir + Eigið fé. Ok… en hvernig tengist það fjárfestingu í fasteign? Jú, þar á nákvæmlega sama jafna við og nema að þú sért Björgólfur Thor eða Robert Wessmann þá þarft þú að kaupa fasteign að hluta til á lánum og að hluta til með eigin fé. Setjum upp raunsætt dæmi á Íslandi í dag:

Þú kaupir 39 fm stúdíóíbúð (þar af geymsla – 18 fm) í 101 á 60 milljónir. Þú tekur 85% lán upp á 51 milljón og borgar 9 milljónir út í reiðufé. Ef fasteignin væri fyrirtækið þitt, þá liti efnahagsreikningurinn svona út:  

  • Eignir – 60 m. kr.
  • Skuldir – 51 m. kr.
  • Eigið fé – 9 m. kr.
Þetta dæmi ætti að koma þér á bragðið með tilgang Efnahagsreikningsins. Hann heldur utan um þessa þrjá ofangreindu parta og sér til þess að eignir séu fjármagnaðar á heilbrigða vegu (með skuldum + eigin fé). Hjá fyrirtækjum eru þó nokkrir undirflokkar undir hverjum og einum part af Efnahagsreikningnum. Sem dæmi flokkast Skuldir í Langtímaskuldir og Skammtímaskuldir og Eignir flokkast í Fastafjármuni og Veltufjármuni. Undir þessum flokkum koma svo enn fleiri flokkar sem eiga til með að gera Efnahagsreikninginn flókinn ásýndar, en óttist ekki kæru lesendur – þetta kemur allt með æfingunni. Meira seinna. Takið kvittun.