Að skilja ársreikninga – Partur 1

Ársreikningur skiptist í þrjá meginhluta; Rekstrarreikning, Efnahagsreikning og Sjóðstreymisyfirlit. Eftirlæti netbankakúrekans er að skoða rekstrarreikning fyrirtækis og draga út frá honum sína „faglegu“ ályktun á hvort gengi fyrirtækisins sé gott eða slæmt og lætur þar við sitja.

Er nóg að lesa bara rekstrarreikninginn?

Nei, heimski kúreki… Það er ekki rétta leiðin, þó vissulega sé hægt að murka góðar upplýsingar úr rekstrarreikningnum þá er það glapræði að ætla að fara að dæma gengi fyrirtækisins út frá einum rekstrarreikningi sé efnahagsreikningur fyrirtækisins ekki skoðaður. Þar gæti allt verið í bál og brand.

Rekstrarreikningur gegnir auðvitað mikilvægu hlutverki í merkilegu samspili þessara þriggja meginhluta sem nefndir voru hér að ofan en hann segir m.a. til um tekjur, gjöld og afkomu fyrirtækisins á yfirstandandi rekstrarári (oftast 1.jan – 31.des).

Endakall rekstrarreikningsins er þó afkoma ársins. Það er eitthvað sem allir hafa áhuga á, sama hvort þú sért Gunnar Smári eða Jeff Bezos. Í megindráttum má finna afkomu ársins með að draga frá tekjum fyrirtækisins öll rekstrargjöld (Vörukaup, Laun, Skrifstofukostnað o.s.frv.) auk afskrifta (ýmist af Fastafjármunum og Óefnislegum eignum) og nettó fjármagnsliði (Vaxtatekjur – Vaxtagjöld). Eftir stendur þá afkoma félagsins, sem yfirvöld þurfa svo að sjálfsögðu að skatta með 20% tekjuskatti (í tilfelli ehf.) ef fyrirtækið skilar jákvæðri afkomu.

En samspil rekstrar- og efnahagsreiknings?

Að lokum stendur eftir hrein afkoma félagsins sem færist yfir á lið sem ber heitið Óráðstafað eigið fé, sem flokkast undir eigið fé í efnahagsreikningnum. Sé afkoman jákvæð hækkar það óráðstafaða eigið féð um þá upphæð sem fyrirtækið hagnaðist en ef hún er neikvæð, þá kemur það til lækkunar á óráðstöfuðu eigið fé.

En hvað með að pumpa bara hagnaðinum út í arð?

Svo lengi sem að óráðstafað eigið fé er jákvætt er hægt að cash-a hagnaði ársins út en það kemur þá til lækkunar á Óráðstöfuðu eigið fé og veikir eiginfjárstöðu fyrirtækisins, en styrkir auðvitað þinn persónulega fjárhag, kæri netbankakúreki.

Segjum þetta gott í dag. Munið að taka kvittun!