Í síðasta pistli talaði ég um að hinn vitgranni netbankakúreki ætti erfitt með að skilja efnahagsreikning fyrirtækja. Eðlilega var ég því lengi að hugsa mig til um hvort ég ætti yfir höfuð að hefja skrif á því sem eftir kemur. Það er mikið um flókin hugtök í sjóðstreymisyfirliti og því er það ekki fyrir viðkvæm augu kúrekans að fá útskýringu á þeim öllum í einum og sama pistlinum, svo hér verður einungis farið yfir gjörsöm grunnatriði.
Skiptir sjóðstreymisyfirlit einhverju máli?
Það er auðvitað gömul mýta að Sjóðstreymisyfirlit skipti engu máli í lestri ársreikninga. Í því samhengi hafa orðskrípum eins og „Sjóðsgleymi“ og „Gleymistreymi“ verið kastað fram í kæruleysi af óábyrgum aðilum. Ef þú vilt trúa því, kæri lesandi, þá skaltu gera það. Þá skaltu telja þér trú um að þetta skipti engu máli, sniðganga sjóðstreymi og hætta lestri. Helst segja þig úr Pyngjubandalaginu.
En hvað er þetta fyrirbæri?
Sjóðstreymi er ekkert annað en yfirlit yfir hvað er að fara í og hvað er að fara úr pyngju fyrirtækis. Í raun speglast boðskapur hlaðvarpsþáttarins Pyngjunnar í sjóðstreymisyfirlitinu. orðið „Sjóður“ er ekkert annað en Pyngja (Gamall leðurpoki þar sem myntir voru geymdar í á árum áður). orðið „Streymi“ má yfirfæra í flæði, þ.e. það sem flæðir í eða úr pyngjunni.
Sjóðstreymið segir sögu. Sögu sem efnahags- eða rekstrarreikningur getur ekki sagt og því er oft gott að nota sjóðstreymið til að átta sig á hvers vegna breytingar eiga sér stað á milli ára í öðrum hlutum ársreiknings. Í grunninn gerir sjóðstreymisyfirlit grein fyrir breytingu á handbæru fé fyrirtækis yfir árið (oftast 1.jan-31.des). Neðst í sjóðstreymisyfirliti má sjá stöðu handbærs fjár í byrjun tímabils og lok þess og svo breytinguna milli ára. Handbært fé í lok árs er svo stærð sem birtist í Efnahagsreikning undir Veltufjármunum.
Hvað er handbært fé?
Það er algeng spurning og henni er mjög auðvelt að svara. Handbært fé er ekkert annað en það fjármagn sem liggur í pyngju fyrirtækis í lok hvers rekstrarárs. Strangt til tekið er það peningur sem liggur inn á bankareikningum fyrirtækis. Það var sennilega ekki hægt að velja ljótari þýðingu á eins fallegu orði en enska heitið yfir handbært fé er „Cash“ svo það er ekki skrítið að íslenska hugtakið velkjist fyrir fólki og hvað þá vitgrönnum netbankakúrekum.
Sjóðstreymi er sá hluti ársreiknings sem ætti að vera einfaldast að átta sig á. Flest þekkjum við gangverk debetkortareiknings. Peningur kemur inn og peningur fer út. Sjóðstreymi er ekki svo fjarri lagi. Það sem hins vegar flækir sjóðstreymi eru alls konar fancy heiti á stærðum eins og veltufé frá rekstri, fjármögnunarhreyfingar og fjárfestingahreyfingar, en það er efni í annan pistil.
Þetta er yfirdrifið nóg í bili. Meira um sjóðstreymi síðar.