Górilla vöruhús

Það sem okkur þykir vera fallegasta hugmynd í heimi er að finna út nákvæmlega hvaða 1, 2 eða 3 atriði vega þyngst þegar kemur að því að byggja upp “successful” business – Og í kjölfarið, einbeita okkur ekki að neinu öðru en því þangað til takmarkinu er náð.

Okkur finnst mikilvægt að einbeita okkur að því sem skiptir reksturinn okkar mestu máli – og eyða okkar persónulega tíma í það sem við erum bestir í – eða enginn annar getur gert eins vel.

Í grunninn sprettur hugmyndin að Górillu Vöruhúsi út frá þessum forsendum. Við viljum að frumkvöðlar, markaðssnillingar og sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum geti einbeitt sér að sínum mikilvægustu verkefnum – og þurfi ekki að eyða sínum dýrmæta tíma, orku eða peningum í að hafa áhyggjur af hliðum rekstursins sem auðvelt er að útvista.

Og síðan 2018, þegar við stofnum Górillu Vöruhús, hefur aldrei verið auðveldara að útvista stórum hluta rekstursins.

Górilla Vöruhús sér um vöruhliðina frá A-Ö fyrir netverslanir og heildsölur og fyrirtæki í okkar þjónustu þurfa ekkert eigið lagerrými, starfsfólki eða bifreiðar. Með þessu móti er hægt að færa risa stóran hluta reksturs út fyrir sviga og stjórnendur, frumkvöðlar eða sölumenn geta einbeitt sér að því að veita framúrskarandi þjónustu eða selja meira.

Við sjáum um að hýsa allan vörulagerinn, afgreiða pantanir samdægurs og keyra heim að dyrum til einstaklinga (B2C) eða beint inn í verslanir (B2B). Og fyrirtæki borga aðeins fyrir þá vinnu og það lagerrými sem krafist er hverju sinni. Enginn fastur kostnaður, engin yfirbygging og 100% sveigjanleiki til þess að stækka eða minnka.

Þetta er hagræðing í rekstri eins og hún gerist best þar sem við einföldum reksturinn, lækkum kostnað og hjálpum fyrirtækjum að veita betri þjónustu. Svo segja sumir að við séum líka bara frekar næs og skemmtileg.